Innlent

Össur: Það á enginn frátekið pláss í þessari ríkisstjórn

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra mynd/GVA
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, segir að það gefi aðildarviðræðum við Evrópusambandið trúverðugleika að hafa Jón Bjarnason sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Þetta kom fram í Kastljósi í kvöld. Hann sagði að á meðan Jón sé enn ráðherra sjái Evrópusambandið að Íslendingum er alvara með umsókn sinni. Aðspurður hvort að Jón Bjarnason eigi áfram að vera í ríkisstjórninni sagði Össur: „Á ég að vera þarna áfram? Það á enginn frátekið pláss í þessari ríkisstjórn," sagði hann og tók fram að hann hafi lifað góðu lífi með Jóni Bjarnasyni í ríkisstjórn.

Í þættinum sagði Össur að samfélagið hér á landi væri ekki eins og það var fyrir nokkrum árum síðar. Í dag hafi stjórnmálamennirnir og flokkarnir minna traust en áður. „Nú lætur þessi þjóð ekki skipa sér fyrir verkum. Þetta er ekki elítusamfélag."

Þá sagðist hann einnig hafa trú á því að það tækist að ná sátt um fiskveiðifrumvarpið þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi bara eins manns meirihluta. Hann sagði að það væri sín skoðun að Framsóknarflokkurinn ætti að koma inn í ríkisstjórnarsamstarfið. „Þetta er mín skoðun en það kemur fyrir að utanríkisráðherra rær einn á báti," sagði hann og bætti við: „Ég verð boxaður af félögum mínum fyrir að segja þetta."

Þá sagðist hann hafa áhyggjur af málarekstrinum fyrir EFTA-dómstólnum. „Já auðvitað hef ég áhyggjur af því. Þetta er mjög þungt og erfitt mál," sagði hann og tók fram að íslenska ríkið myndi fá alla bestu fáanlegu lögfræðinga hér á landi til að starfa með sér ásamt lögfræðistofum úti í heimi. „Við erum staðráðin í að gera allt sem við getum," sagði hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×