Innlent

Sjávarfallavirkjun til að hlífa Teigsskógi

Sjávarfallavirkjun þvert yfir Þorskafjörð, sem jafnframt yrði brú, er til umræðu sem sáttaleið í deilum um framtíðarlegu Vestfjarðavegar um Gufudalssveit í Reykhólahreppi.

Erfiðustu hindranirnar í vegi þess að byggðirnar á sunnanverðum Vestfjörðum tengist öðrum landshlutum með nútímavegi eru Hjallaháls og Ódrjúgsháls. Deilur hafa hins vegar verið um þá tillögu Vegagerðarinnar að losna við hálsana með því að fara þvert yfir Gufufjörð og Djúpafjörð og um utanverðan Þorskafjörð í gegnum Teigsskóg.

Sá möguleiki er nú til skoðunar í sérstakri sáttanefnd hvort raunhæft sé að leysa málið með sjávarfallavirkjun sem jafnframt yrði brú. Tillagan er mastersverkefni Bjarna M. Jónssonar, sérfræðings í auðlindastjórnun. Hann segir svæðið henta vel fyrir 60 megavatta virkjun, sem framleiddi um 180 gígavattstundir á ári. Slík virkjun gæti farið að skila hagnaði eftir tíu ár í rekstri, að mati Bjarna, og vegurinn gæti því orðið einskonar bónus.

Helstu rökin gegn vegagerð á þessum slóðum eru röskun á lífríki í fjörum en Bjarni vill meina að áhrif sjávarfallavirkjunar á fjörurnar verði lítil. Hann bendir á að virkjunin yrði ekki stífla heldur yrði reynt að láta eins mikið af vatninu og unnt væri ganga inn og út úr firðinum. Útfallinu yrði þó seinkað aðeins, eða um klukkustund, sem yrðu helstu umhverfisáhrifin.

Brú um sjávarfallavirkjun þvert yfir mynni Þorskafjarðar, frá Stað á Reykjanesi yfir að Skálanesi, þýddi að þorpið á Reykhólum kæmist í alfaraleið.

Hvort þetta verkefni hlýtur brautargengi segir Bjarni að sé pólitísk ákvörðun. Hann bendir hins vegar á að menn verði að velja; ekki verði bæði ráðist í vegagerð um hina umdeildu veglínu og sjávarfallavirkjun yst í firðinum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.