Innlent

Vill sérmerkja barnaefni sem inniheldur auglýsingar

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Talsmaður neytenda vill að sérstakar merkingar séu á mynddiskum fyrir börn sem innihalda auglýsingar. Framleiðendur barnaefnis segja algengt að auglýsingar séu inn í sjálfu efninu, án þess sé ekki hægt að framleiða slíkt efni.

Umboðsmanni barna hafa borist ábendingar vegna auglýsinga í Söngvaborgunum, sem eru mynddiskar ætlaðir börnum. Á diski sem nýlega var gefinn út má sjá auglýsingar frá Íslandsbanka og Mjólkursamsölunni bæði áður en barnaefnið hefst og á meðan það er í sýningu. Til að mynda má sjá Georg sparibauk Íslandsbanka og ýmsar vörur frá Mjólkursamsölunni. Þær María Björk Sverrisdóttir og Sigríður Beinteinsdóttir framleiða Söngvaborgina.

„Í okkar tilviki þá gætum við ekki gert Söngvaborgina nema að hafa með okkur samstarfsaðila. Það er bara ekki hægt en hvort það sé eðlilegt eða óeðlilegt bara í okkar tilfelli þá bara þurfum við þess til að geta gert þetta vandaða barnaefni," segir söngkona Sigríður Beinteinsdóttir.

Talsmaður neytenda og umboðsmaður barna gáfu árið 2009 út sérstakar reglur þar sem tekið er á auglýsingum fyrir börn. Endurskoða á þessar reglur eftir áramótin og vill talsmaður neytenda að sérstakar merkingar verði settar á mynddiska með barnaefni þar sem bent er á ef að diskurinn inniheldur auglýsingar.

„Það má segja að þetta sé ákveðin neytendavernd að láta vita af því að með í kaupunum fylgi óumbeðnar auglýsingar sem að ekki er hægt að spóla yfir. Það er ekkert víst að allir foreldrar vilji það sumir vilja það kannski, aðrir vilja það ekki, foreldrar eiga að ráða hvernig umhverfi börnin eru að alast upp í og þar á meðal hversu markaðsvætt það er," segir Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda.

Ekki er hægt að spóla yfir auglýsingarnar á nýjustu Söngvaborginni. Gísli segir auglýsingar inni í sjálfu barnaefninu alls ekki eiga að sjást.

„Það er auglýsing sem að kallast vöruinnsetning og hún er alltaf óheimil í barnaefni samkvæmt okkar leiðbeiningarreglum. Ef þetta væri fjölmiðill þá væri þetta líka brot á fjölmiðlalögum," bætir Gísli við.

Þær María Björk og Sigríður Beinteins segjast ómögulegt að sleppa auglýsingum inni í sjálfu efninu og hafa þær einungis fyrir fram og aftan það. Þær velji hins vegar þær auglýsingar sem sjást vel, til að mynda með hollustu og hreyfingu í huga.

„Það er kannski svolítið erfitt að gera það þegar þú ert með samstarfsaðila sem að eru kannski að láta einhverja aura af höndum í þetta. Þá er svolítið erfitt að einskorða við bara auglýsingar fyrir framan því oft á tíðum getur þú spólað yfir auglýsingarnar og annað. Þannig að við höfum bara ekki getað gert það örðuvísi en á þenna hátt en við höfum gert," segir Sigríður.

Og þá segja þær auglýsingar inni í barnaefni mjög algengar.

„Þetta er inni í öllu barnaefni sem að ég hef séð, hvort sem það er íslenskt eða erlent," segir María Björk að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×