Lífið

Ítalskur dagskrárstjóri ráðinn til RIFF

Ítalinn Giorgio Gosetti hefur verið ráðinn dagskrárstjóri Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík.
Ítalinn Giorgio Gosetti hefur verið ráðinn dagskrárstjóri Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík.
Ítalinn Giorgio Gosetti hefur verið ráðinn dagskrárstjóri Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík, RIFF. „Ég get fullyrt það að hann er tvímælalaust einn af bestu dagskrárstjórum í Evrópu og þótt víðar væri leitað,“ segir Hrönn Marinósdóttir, stjórnandi RIFF.

Gosetti hefur stjórnað dagskránni Venice Day á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum þar sem athyglinni er beint að óháðum myndum. Áður stjórnaði hann kvikmyndahátíðinni í Róm.

„Það er mikilvægt fyrir okkur að vera með gott fólk í dagskrárdeildinni sem hefur samböndin og þekkinguna til að geta náð í bestu myndirnar. Það er frábært að maður af þessu kaliberi hafi áhuga á hátíðinni og vilji vinna með okkur,“ segir Hrönn sem vonast til að hann starfi næstu þrjú árin fyrir RIFF. Gosetti verður dagskrárstjóri Vitrana sem er keppnisflokkur hátíðarinnar og verður sérlegur ráðgjafi um aðra dagskrárhluta. Hann tekur við starfinu af Grikkjanum Dimitri Eipides sem hefur unnið fyrir hátíðina frá árinu 2005.

Töluverð óvissa var um framtíð RIFF fyrr á árinu en núna eru hlutirnir komnir í betri farveg. Þar hjálpar til Media-styrkur sem hátíðin fékk hjá Evrópusambandinu upp á tæpar sex milljónir króna. Síðast fékk RIFF þennan styrk árið 2009. „Það eru ekki margar hátíðir sem fá þennan styrk. Hann skiptir sköpum fyrir okkur,“ segir Hrönn.

Höfuðstöðvar hátíðarinnar, sem verður haldin í áttunda sinn í haust, hafa einnig verið færðar yfir á Tjarnargötu 12 við hliðina á Tjarnarbíói. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.