Fótbolti

Óbreytt fyrirkomulag í undankeppni HM 2014

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Michel Platini, foseti UEFA.
Michel Platini, foseti UEFA. Nordic Photos / AFP
Framkvæmdarstjórn Knattspyrnusambands Evrópu staðfesti á fundi sínum í dag að óbreytt fyrirkomulag verður á undankeppninni í Evrópu fyrir heimsmeistarakeppnina sem fer fram í Brasilíu árið 2014.

Þátttökuþjóðunum 53 verður skipt í níu riðla. Sex lið verða í átta riðlum og fimm í einum. Sigurvegararnir níu komast beint á HM og þau átta lið sem ná bestum árangri í öðru sæti sinna riðla fara í umspil um fjögur síðustu sætin á HM.

Þetta er sama fyrirkomulag og var í undankeppni HM 2010. Þá var Ísland einmitt í eina riðlinum sem innihélt fimm lið og einnig þeim eina sem átti ekki lið í umspilinu. Noregur varð í öðru sæti en náði lakasta árangri þeirra níu liða sem urðu í öðru sæti sinna riðla.

Evrópa fær þrettán sæti á HM í Brasilíu en dregið verður í riðla í undankeppninni í júlí næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×