Lífið

Vináttan hófst í Dressmann

Guðjón Þorsteinn Pálmarsson til vinstri, ásamt tónlistarmanninum John Grant við Seljalandsfoss.
Guðjón Þorsteinn Pálmarsson til vinstri, ásamt tónlistarmanninum John Grant við Seljalandsfoss.
„Það var mjög ánægjulegt að kynnast honum. Þetta er helvíti fínn gaur,“ segir leikarinn Guðjón Þorsteinn Pálmarsson.

Hann var leiðsögumaður bandaríska tónlistarmannsins Johns Grant þegar hann var staddur hér á landi vegna tónleika sinna á Airwaves-hátíðinni á laugardaginn.

Guðjón Þorsteinn og vinur hans hittu Grant fyrir tilviljun í versluninni Dressmann á Laugaveginum og tókust þá með þeim kynni. „Ég kynntist tónlistinni hans fyrir einhverju síðan og hún náði mér strax. Ég tók bara í spaðann á honum og við tókum tal saman. Við settumst þrír niður í kaffibolla og blöðruðum í einhverja tvo tíma um heima og geima,“ segir Guðjón, sem leikur um þessar mundir í sjónvarpsþáttunum Heimsendi. „Hann hefur átt svo magnaða ævi og ekki fengið neinn afslátt af lífinu. Það var ofboðslega gaman að tala við hann. Hann leyfir sér að hrífast af því sem er í kringum hann. Það er ákveðinn eiginleiki sem við mörg hver þorum ekki að hafa, viljum bara vera kúl.“

Grant gaf á síðasta ári út sína fyrstu sólóplötu, Queen of Denmark, sem margir gagnrýnendur töldu eina þá bestu á árinu. Í viðtali við Fréttablaðið sagðist Grant hafa beðið í tuttugu ár eftir því að koma til Íslands og ætlaði hann að dvelja hér í fimm daga. Miðað við fögur orð hans í garð Íslands á tónleikunum, alla vinina sem hann eignaðist hér og þann fjölda mynda sem hann hefur birt á Facebook-síðu-sinni frá ferðalaginu er greinilegt að Grant hefur ekki orðið fyrir vonbrigðum. „Hann var algjörlega í skýjunum. Við keyrðum alla leið í Vík. Það var ekkert sérstakt veðrið og við sáum ekki nema helminginn af landinu sem við keyrðum fram hjá en það breytti ekki neinu. Hann var alveg frá sér numinn,“ segir Guðjón. „Svo hefur hann mikinn áhuga á tungumálinu og var alltaf að spyrja um einhverja frasa og út í málfræði. Orð eins og Eyjafjallajökull, hann var ekki lengi að ná því.“

Guðjón og Grant gengu um svörtu ströndina í Vík, skoðuðu Seljalandsfoss og fóru í byggðasafnið í Skógum. Í Reykjavík kíktu þeir í Kolaportið og skoðuðu þar mannlífið. Eftir tónleikana í Hörpunni fóru þeir síðan ásamt tveimur öðrum upp á Hellisheiði að einni af borholunum sem þar eru. „Þarna sáum við kraftinn í sinni mögnuðustu mynd gjósa upp úr jörðinni.“ Grant fór einnig á Biophilia-tónleika Bjarkar í Hörpunni og á tónleika Sinéad O"Connor í Fríkirkjunni.

Að sögn Guðjóns hefur Grant mikinn áhuga á að koma aftur til Íslands og hver veit nema þeir félagar endurnýi þá kynni sín.

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.