Lífið

Fótboltastrákur úr Árborg slær í gegn á Flick My Life

Útklippt mynd af Páli Óla Ólasyni hefur verið vinsæl á síðunni Flickmylife.com að undanförnu.
Útklippt mynd af Páli Óla Ólasyni hefur verið vinsæl á síðunni Flickmylife.com að undanförnu.
„Ég veit ekkert hver er að gera þetta,“ segir Páll Óli Ólason sem hefur slegið í gegn á síðunni Flickmylife.com að undanförnu. Þar hefur ljósmynd af honum verið klippt á skondinn hátt inn í ýmsar kringumstæður. Má þar nefna atriði úr gamanmyndinni Forrest Gump, nautaat, skautadans og morðið á Lee Harvey Oswald, banamanni Johns F. Kennedy, fyrrum Bandaríkjaforseta.

Páll Óli spilar fótbolta með Árborg í 1. deildinni. Myndin af honum var tekin þegar hann stillti sér upp í varnarvegg í æfingaleik gegn Reyni Sandgerði í vor. Á meðan félagar hans í veggnum voru í hinum ýmsu stellingum þegar spyrnan var tekin stóð hann, að því er virtist óttalaus, og beið eftir skotinu. Myndin birtist fyrst á síðunni Fotbolti.net en eftir það hefur útklippt myndin af Páli Óla öðlast nýtt líf á Flick My Life. „Mér er svo sem sama,“ segir hann um birtinguna. „Ég er sem betur fer ekki eins og fífl á myndinni. Þetta var svo léleg aukaspyrna að ég þurfti ekki að hreyfa mig neitt.“

Aðspurður segist hann ekki vera að íhuga málsókn vegna myndaraðarinnar, líkt og Ásgeir Kolbeinsson íhugaði fyrr á árinu þegar einkalíf hans var orðið óþægilega áberandi á síðunni. „Hann fór upp í fimmtíu og eitthvað. Hann var ekki par sáttur skilst mér en ég hef bara gaman af þessu. Þarna er ekkert verið að taka líf mitt og draga mann eitthvað niður,“ segir Páll Óli hress.

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.