Lífið

Meira af öllu frá Bon Iver

Önnur plata Bon Iver, samnefnd hljómsveitinni, er nýkomin út.
Önnur plata Bon Iver, samnefnd hljómsveitinni, er nýkomin út.
Önnur plata Bon Iver er komin út. Hún var tekin upp í gamalli innisundlaug skammt frá æskuheimili forsprakkans Justins Vernon í Wisconsin-ríki.

Bon Iver hefur gefið út aðra plötu sína og er hún samnefnd hljómsveitinni. Hún var tekin upp í fyrrum dýralæknastofu í bænum Fall Creek í Wisconsin sem forsprakkinn Justin Vernon og bróðir hans keyptu árið 2008 og breyttu í hljóðver. Aðalupptökurýmið er í gamalli innisundlaug sem tengdist læknastofunni. Hljómar ekki ósvipað og Sundlaugin sem Sigur Rós hefur lengi notast við. „Að vinna á þessum stað sem við byggðum upp veitti okkur mikið frelsi,“ sagði Vernon. „Hann er bara fimm kílómetrum frá húsinu þar sem ég ólst upp og bara í tíu mínútna fjarlægð frá barnum þar sem foreldrar mínir kynntust.“

Hinn þrítugi Vernon stofnaði Bon Iver árið 2007 eftir að hann hætti í þjóðlagabandinu DeYarmon Edison og sömuleiðis með kærustunni sinni. Hann langaði að komast í burtu og flutti upp í fjallakofa föður síns. Þar fékk hann hugmyndina að Bon Iver-nafninu, samdi lágstemmd kassagítarlög og texta þar sem sambandsslitin voru krufin til mergjar. Eftir að hafa fengið góð viðbrögð við lögunum hjá vinum sínum gerði hann samning við fyrirtækið Jagjaguwar sem gaf út plötuna For Emma, Forever Ago árið 2008. Hún fékk mikið lof gagnrýnenda og lagið Skinny Love naut sérstakra vinsælda. Rapparinn Kanye West var einn þeirra sem sperrti eyrum og fékk Vernon til að aðstoða sig á síðustu plötu sinni, My Beautiful Dark Twisted Fantasy, með góðum árangri.

Flottir tónlistarmenn aðstoðuðu Vernon við upptökurnar á nýju plötunni og hann segir þá eiga alveg jafnmikinn hlut í Bon Iver-verkefninu og hann sjálfur. Eiga þeir það sammerkt að hafa unnið með virtum flytjendum á borð við Tom Waits, Arcade Fire, Sufjan Stevens, Antony and the Johnsons og The National.

Útsetningarnar eru fjölbreyttari en áður og elektróník kemur við sögu. Andrúmsloftið er engu að síður svipað og á For Emma, Forever Ago þar sem notaleg falsettu-rödd Vernons svífur yfir vötnunum. Platan hefur fengið mikið lof gagnrýnenda. The Guardian gefur henni fullt hús, eða fimm stjörnur, Uncut sömuleiðis og Pitchfork splæsir á hana 9,5 í einkunn af 10 mögulegum. Tímaritin Mojo og Q eru einnig hrifin og gefa henni fjórar stjörnur af fimm á meðan Rolling Stone límir á hana þrjár og hálfa stjörnu og segir að á henni sé meira af öllu en á síðustu plötu.

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.