Erlent

Gífurlegt eignatjón eftir ofsaveður í Færeyjum

Gífurlegt eignatjón hefur orðið í Færeyjum eftir ofsaveður sem skall á eyjunum í gærkvöldi og herjaði þar fram eftir nóttu.

Vindstyrkurinn í þessu veðri fór upp í allt að 51 metra á sekúndu. Til samanburðar má nefna að vindmörkin sem sett eru fyrir fellibyli byrja í 32 metrum á sekúndu þannig að um tíma hefur veðrið verið á borð við annars stigs fellibyl.

Í fréttum um veðrið á vefsíðunni portalurin segir að bátar hafi slitnað frá bryggju og rekið upp í fjöru, þök hafi fokið af húsum og bílskúrar fokið í heilu lagi. Þungir fiskkassar liggi eins og hráviði um allt við Tóftir.

Þá hafi orðið að flytja alla íbúa af elliheimilinu í Trongisvogi eftir að þakið fauk af heimilinu. Lögreglan í Þórshöfn bannaði öllum íbúum bæjarins að vera á ferli í gærkvöldi sökum þess hve mikið var um fjúkandi þakplötur í bænum. Ekki er vitað um neina skaða á fólki í þessu veðri.

Óttast er að olía hafi lekið úr strandferðaskipinu Tróndur sem slitnaði frá bryggju á Skála og rak upp í fjöru.

Veðrið hefur verið að ganga niður nú seinnihluta nætur en ljóst er að mikið endurbyggingar og hreinsunarstarf bíður Færeyinga í dag.

Stormur þessi stefnir nú á Noreg og hefur hlotið nafnið Berit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×