Enski boltinn

Fórnarlamb Rooney: Ég sendi ekkert bréf til UEFA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney og Miodrag Dzudovic berjast um boltann í leiknum fræga.
Wayne Rooney og Miodrag Dzudovic berjast um boltann í leiknum fræga. Mynd/AP
Miodrag Dzudovic, sá sem Wayne Rooney sparkaði niður í Svartfjallandi og fékk rautt spjald fyrir, segir ekkert vera til í þeim fréttum að hann hafi sent bréf til UEFA þar sem að hann hafi talað máli Rooney.

Wayne Rooney var dæmdur í þriggja leikja bann af UEFA fyrir að sparka Dzudovic niður í umræddum leik en það þýðir að Rooney missir af allri riðlakeppninni á EM næsta sumar. Enska sambandið ákvað hinsvegar að áfrýja dómnum fyrir helgi.

Fréttir bárust frá Rússlandi að Dzudovic hafi verið tilbúinn að hjálpa Rooney að sleppa við svo langt bann og að hann hafi vegna þessa skrifað bréf til UEFA.

„Upphafið af þessu má rekja til dagblaðs í Rússlandi sem birti frétt um að ég hafi skrifað bréf til UEFA. Það gæti ekki verið fjær sannleikanum," sagði Miodrag Dzudovic í viðtali við Vijesti-blaðið í Svartfjallalandi.

„Það voru einhverjir stuðningsmenn Manchester United sem stóðu fyrir þessu og ég var alveg tilbúinn að spila með þegar ritstjórinn spurði mig. Það er hinsvegar lygi að ég hafi sent þetta bréf til UEFA," sagði Dzudovic sem leikur með Spartak Nalchik liðinu í Rússlandi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×