Enski boltinn

Mancini vill fá miklu meira frá Adam Johnson

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Adam Johnson.
Adam Johnson. Mynd/Nordic Photos/Getty
Roberto Mancini, stjóri Manchester City, var ekkert að missa sig yfir góðri frammistöðu Adam Johnson í sigrinum á Wolves í enska deildarbikarnum í gær og ítalski stjórinn vill fá meira frá enska landsliðsvængmanninum.

Adam Johnson skoraði eitt mark og lagði upp annað fyrir Samir Nasri í þessum 5-2 sigri Manchester City á Wolves á Molineux í gærkvöldi. Fyrir aðeins viku skipti Mancini Adam Johnson útaf í fyrri hálfleik í Meistaradeildarleik á móti Villarreal.

„Stundum hugsar hann (Johnson). Í þessum leik er ég búinn að skora mark og leggja upp mark. Það hlýtur að vera nóg," sagði Roberto Mancini.

„Adam er ungur og getur enn bætt sig mjög mikið. Hann þarf hinsvegar að breyta hugsunarhætti sínum. Hann getur náð langt ef hann vill það sjálfur og ég trúi því að hann geti orðið einn af bestu vængmönnum í heimi," sagði Mancini.

„Hann spilaði vel á móti Úlfunum en hann átti líka algjörlega annað markið hjá Wolves þegar hann fylgdi sínum manni (Jamie O'Hara) ekki eftir inn i teig," sagði Mancini.

„Adam er eini vængmaðurinn sem við erum með í liðinu en hann getur ekki spilað á þriggja daga fresti. Ef hann vill verða betri þá mun hann hinsvegar fá fullt af tækifærum til að spila," sagði Mancini.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×