Enski boltinn

Tillögum Liverpool um skiptingu sjónvarpstekna mætt af mikilli andstöðu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
John W. Henry, Ian Ayre og Damien Comolli eru hér saman á góðri stundu.
John W. Henry, Ian Ayre og Damien Comolli eru hér saman á góðri stundu. Nordic Photos / Getty Images
Forráðamenn minni félaganna í ensku úrvalsdeildinni hafa margir lýst yfir mikilli óánægju sinni með ummæli Ian Ayre, framkvæmdarstjóra Liverpool, um skiptingu sjónvarpstekna.

Ayre var í viðtali í The Times í gær og sagði að það væri ósanngjarnt að skipta sjónvarpstekjum sem aflað er utan Bretlands jafnt á milli liðanna í ensku úrvalsdeildinni.

„Sá sem kaupir sér aðgang að sjónvarpsútsendingum ensku úrvalsdeildarinnar í Kuala Lumpur er mjög líklega stuðningsmaður Liverpool, Manchester United, Chelsea eða Arsenal,“ sagði Ayre. Hann vill meina að það sé ekki sanngjarnt að lið eins og Wigan eða Bolton fái jafn stóran hlut af þeirri köku og „stóru“ liðin í deildinni.

„Ég er nýbúinn að lesa ummæli Ayre og finnst þau djöfulleg,“ sagði Dave Whelan, stjórnarformaður Wigan. „Ég bara trúi því ekki að hann hafi sagt þetta.“

The Mirror fullyrðir svo í dag að forráðamenn liða eins og Chelsea, Arsenal, Manchester City og Manchester United styðji núverandi fyrirkomulag um skiptingu sjónvarpstekna og hafi ekki áhuga á að breyta því.

Því er þó haldið fram í The Guardian að Glazer-fjölskyldan, eigandi Manchester United, hafi í raun íhugað að taka þennan slag með John Henry, eiganda Liverpool.

Þess má svo geta að spænsku stórliðin Real Madrid og Barcelona eiga sjálf sjónvarpsréttinn að sínum heimaleikjum og sjá sjálf um sölu á honum til sjónvarpsstöðva víða um heim. Roberto Martinez, stjóri Wigan, segir það ekki til eftirbreytni.

„Sú skipting hefur ekki virkað á Spáni,“ sagði Martinez sem sjálfur er Spánverji. „Real Madrid og Barcelona verða bara ríkari og ríkari og það verður erfiðara fyrir önnur lið að keppa við þau eftir því sem árin líða. Skipting er frábær fyrir þessi tvö lið en er slæm fyrir deildina.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×