Fótbolti

Ekki vinsælt að vera með iPad-inn sinn á varamannabekknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mario Balotelli med ipad-inn sinn.
Mario Balotelli med ipad-inn sinn. Mynd/Nordic Photos/Getty
Það líður varla vika á milli þess Mario Balotelli komi sér í vandræði innan sem utan vallar. Nú síðast eru ítalskir fjölmiðlar uppfullir af fréttum af því að Balotelli sé komin í ónáðina hjá Cesare Prandelli, landsliðsþjálfara Ítala, eftir hegðun sína út í Færeyjum.

Mario Balotelli var á bekknum á móti Færeyjum á dögunum og hafði greinilega ekki alltof mikinn áhuga á því að fylgjast með félögum sínum í leiknum því hann mætti með ipad-inn sinn til þess að hafa eitthvað til að dunda sér í á varamannabekknum.

Balotelli þurfti reyndar að skilja við sig ipad-inn á 85. mínútu leiksins þegar hann fór inn á fyrir Antonio Cassano sem hafði áður skorað eina mark leiksins. Það fylgir ekki sögunni hver fékk að geyma græjuna á meðan.

Gigi Riva, liðstjóri ítalska landsliðsins, hefur neitað því að þessi hegðun Mario Balotelli þýði að hann hafi verið settur út í kuldann hjá ítalska landsliðinu en Ítalir mæta Slóveníu á heimavelli á morgun og geta tryggt sér sæti á EM með sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×