Enski boltinn

Valencia með nýjan samning

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Valencia í leik á síðasta tímbili
Valencia í leik á síðasta tímbili
Antonio Valencia hefur skrifað undir nýjan fjögurra ára samning við Englandsmeistara Manchester United.

Valencia sem er 25 ára gamall er nú því samningsbundinn Manchester United til ársins 2015. Valencia lék ekkert með Manchester United í fimm mánuði á síðasta tímabili en hann hefur skorað 10 mörk í 69 leikjum fyrir félagið og lék hann mjög vel undir lok síðasta tímabils þegar liðið tryggði sér 19. Englandsmeistaratitilinn og fór alla leið í úrslit Meistaradeildar Evrópu.

Valencia sér fram á aukna samkeppni um sæti í liði Manchester United eftir að félagið keypti Ashley Young frá Aston Villa en Alex Ferguson stjóri Man. Utd. er mjög ánægður með að hafa framlengt samning Valencia.

"Antonio hefur skilað miklu til félagsins á tíma sínum hér. Hraði hans, fyrirgjafir og fjölhæfni er mikill styrkur fyrir félagið," sagði Ferguson við heimasíðu Manchester United.

"Það fer ekki mikið fyrir því hvernig hann vinnur sína vinnu sem undirstrikar mikinn andlegan styrk hans, sem sýndi sig þegar hann vann sig til baka eftir erfið meiðsl á síðasta tímbili.

Valencia er sjálfur hæst ánægður með nýja samninginn. "Mér hefur liðið vel hér frá fyrsta degi og ég vona að ég haldi áfram að bæta mig sem leikmaður," sagði Valencia og bætti við: "Ég hlakka til að gera mitt til að hjálpa liðinu að keppa um fleiri titla."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×