Enski boltinn

Arsenal og Tottenham tilbúin að eyða 26 milljónum punda í Falcao

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Radamel Falcao skorar hér sigurmark sitt í Evrópudeildinni.
Radamel Falcao skorar hér sigurmark sitt í Evrópudeildinni. Mynd/AP
Umboðsmaður kólumbíska sóknarmannsins Radamel Falcao, sem fór á kostum með Evrópudeildarmeisturum Porto, á þessu tímabili segir að ensk félög hafi mikinn á áhuga á leikmanninum. Hann segir að bæði Arsenal og Tottenham séu tilbúin að eyða 26 milljónum punda í Falcao.

Radamel Falcao er 25 ára gamall framherji sem skoraði 17 mörk í Evrópudeildinni í vetur en hann er frábær skallamaður þó svo að hann sé ekki hár í loftinu. Falcao skoraði sigurmark Porto í úrslitaleik Evrópudeildarinnar í síðustu viku og að sjálfsögðu með skalla.

Porto er að reyna að gera nýjan samning við Falcao en bæði Norður-London liðin eru að leita sér að framherja fyrir næsta tímabil.

„Englendingar eru vitlausir í Falcao," sagði Claudio Mossi, umboðsmaður Radamel Falcao. „Arsenal og Tottenham fara þar fremst í flokki og þau eru tilbúnir að borga fyrir hann þær 30 milljónir evra sem kostar að kaupa upp samninginn," sagði Mossi.

Falcao hefur lýst því yfir sjálfur að hann vilji spila áfram með Porto en liðið verður í Meistaradeildinni á næstu leiktíð. Mossi lagði áherslu á það að leikmaðurinn þyrfti nú tíma með fjölskyldu sinni til að ákveða næsta skref á ferlinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×