Fótbolti

Blendnar tilfinningar í frumraun Welbeck

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stuðningsmenn Gana á leiknum í gær.
Stuðningsmenn Gana á leiknum í gær. Nordic Photos / AFP
Danny Welbeck viðurkenndi eftir frumraun sína með enska landsliðinu í gær að hann hefði upplifað blendnar tilfinningar.

Welbeck spilaði síðustu tíu mínúturnar þegar að England gerði jafntefli við Gana, 1-1, í vináttulandsleik á Wembley-leikvanginum.

Hann er fæddur í Manchester í Englandi en foreldrar hans eru frá Gana. Welbeck hefur leikið með öllum yngri landsliðum Englands en engu að síður reyndu forráðamenn knattspyrnusambands Gana að sannfæra Welbeck um að spila með sínu A-landsliði.

Því hafnaði Welbeck og fékk hann heldur óblíðar viðtökur frá stuðningsmennum Ganverja á leiknum sem púuðu á hann í gær.

„Þetta var heldur súrsætt augnablik,“ sagði Welbeck við enska fjölmiðla eftir leikinn. „Mér er annt um bæði lönd en get ekki spilað fyrir þau bæði. Ég hef svo sem skilning á baulinu en ég get ekki gert öllum til geðs.“

„Ég hef spilað með yngri landsliðum Englands í hverjum einasta aldursflokki og því eðlilegt að ég skyldi einnig þiggja tækifærið að spila fyrir A-liðið einnig. Ég er auðvitað hæstánægður með það.“

Welbeck er samningsbundinn Manchester United en var lánaður til Sunderland. Liðsfélagi hans þar, Asamoah Gyan, skoraði mark Gana í gær.

„Þeim þykir vissulega vænt um hann en stuðningsmennirnir fara stundum í taugarnar á manni,“ sagði Gyan um sína stuðningsmenn. „Ég hef sjálfur rætt við hann um þetta en hann hefur gert upp sinn hug og ég ber virðingu fyrir því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×