Fótbolti

Ribery baðst afsökunar á hegðun sinni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ribery og landsliðsþjálfarinn Laurent Blanc á landsliðsæfingu í dag.
Ribery og landsliðsþjálfarinn Laurent Blanc á landsliðsæfingu í dag. Nordic Photos / AFP
Franck Ribery er kominn aftur í franska landsliðið og baðst í dag afsökunar á hegðun sinni á síðasta ári. Árið 2010 var viðburðarríkt fyrir Ribery en hann vill sjálfsagt gleyma því sem fyrst.

Í apríl var greint frá því að hann, ásamt þremur öðrum þekktum knattspyrnumönnum, hefði átt í tygjum við vændiskonu sem hafi verið undir lögaldri í þokkabót og var mikið fjallað um málið í frönskum fjölmiðlum.

Í sama mánuði fékk hann að líta rauða spjaldið í leik með liði sínu, Bayern München, gegn Lyon í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu. Það þýddi að hann var í banni þegar að Bayern tapaði fyrir Inter í úrslitaleik keppninnar.

Hann varð að vísu bæði Þýskalandsmeistari og þýskur bikarmeistari með Bayern en hafði misst af stórum hluta tímabilsins vegna meiðsla.

Óhætt er að segja að ekkert betra hafi tekið við um sumarið þegar að HM í knattspyrnu fór fram í Suður-Afríku. Franska liðinu gekk afleitlega í keppninni sjálfri en vandræði utan vallar voru jafn vel enn meira áberandi. Allt fór á annan endann í heimalandinu eftir að Nicklas Anelka var rekinn heim fyrir að rífast við landsliðsþjálfarann, Raymond Domenech, og fóru leikmennirnir til að mynda í verkfall vegna þessa.

Ribery var dæmdur í þriggja leikja bann af franska knattspyrnusambandinu fyrir sinn þátt í uppreisninni. Hann hefur nú tekið út þá refsingu.

„Ég hafði rangt við í hegðun minni út frá öllum mögulegum sjónarhólum á þessu hræðilega ári 2010," sagði Ribery. „Ég valdi rangar leiðir og týndi sjálfum mér."

„Ég særði fólk, sérstaklega þá sem standa mér næst. Ég olli mörgum vonbrigðum og aðrir voru mjög hneykslaðir á mér. Ég kenni sjálfum mér um og biðst afsökunar."

„Ég vil nú snúa blaðinu við og gleyma öllu þessu. Franski landsliðsbúningurinn mun alltaf eiga sér sess í mínu hjarta."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×