Enski boltinn

Robin van Persie: Bikartöpin gætu bara hjálpað Arsenal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robin van Persie.
Robin van Persie. Mynd/Nordic Photos/Getty
Arsenal-maðurinn Robin van Persie telur að það muni hjálpa liðinu á lokasprettinum í ensku úrvalsdeildinni að Arsenal sé ekki lengur að keppa á öðrum vígstöðum. Arsenal hefur dottið út úr Evrópukeppninni, enska bikarnum og enska deildarbikarnum á síðustu vikum og er enn án titils í sex ár.

„Það er mikið áfall að kasta frá okkur þremur bikurum á aðeins þremur vikum. Samt sem áður höfum við enn stórt markmið og það er að vinna ensku úrvalsdeildina. Við erum fimm stigum á eftir United en við getum minnkað það niður í tvö stig ef við klárum leikinn sem við eigum inni," sagði Robin van Persie.

„Það er satt að segja kostur að við séum ekki lengur í öðrum keppnum því þær munu ekki trufla okkur lengur. Við höfum þetta líka enn í okkar höndum og við ætlum að gera allt til þess að vinna titilinn þó að við höfum orðið fyrir áföllum á síðustu vikum," sagði Van Persie.

„Þetta er bara fóbolti og svona hlutir gerast. Birmingham [City] vann okkur í deildarbikarúrslitleiknum en tapaði síðan fjórum deildarleikjum í röð. Enska úrvalsdeildin er bara búin að vera skrýtin í vetur. Ég vona að við höfum samt lært eitthvað af þessum úrslitaleik en við munum samt aldrei vita það fyrr en það reynir á það," sagði Van Persie.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×