Enski boltinn

Jose Mourinho: Bestu liðin á Englandi eru ekki eins góð og áður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho, stjóri Real Madrid.
Jose Mourinho, stjóri Real Madrid. Mynd/Nordic Photos/Getty
Jose Mourinho, stjóri Real Madrid, segir að bestu liðin í ensku deildinni séu ekki eins öflug og þegar hann var að stýra Chelsea á árunum 2004 til 2007. Real Madrid mætir Tottenham í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

„Þegar ég var hjá Chelsea þá urðum við að vinna alla leiki því hvert einasta tapaða stig gat reynst dýrkeypt. Það er eins á Spáni núna. Bestu liðin í ensku deildinni eru hinsvegar að tapa mikið af stigum á þessu tímabili og öll liðin hafa gengið í gegnum erfiðleika. Það lítur þannig út fyrir mér að bestu liðin á Englandi séu ekki eins góð og áður," sagði Jose Mourinho.

Hinn 48 ára gamli Mourinho er viss um að Real Madrid slái út Tottenham og komist inn í undanúrslit Meistaradeildarinnar.

„Það eru öll lið erfiðir andstæðingar og Tottenham er með gott lið. Þeir unnu Inter, slógu út AC Milan og hafa háleit markmið. Maður hefur það á tilfinningunni að þarna sé ánægt lið og ánægð lið eru alltaf hættuleg lið," sagði Mourinho.

„Þeir hafa þegar ástæðu til að vera stoltir af árangri vetrarins í Meistaradeildinni og þeir munu berjast fyrir sæti í undanúrslitunum. Ég tel bara að við séum með betra lið," sagði Mourinho.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×