Enski boltinn

Comolli: Stemningin betri hjá Liverpool eftir að Torres fór

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea, og Fernando Torres.
Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea, og Fernando Torres. Nordic Photos / Getty Images
Damien Comolli, yfirmaður knattspyrnumála hjá Liverpool, segir að það hafi reynst mjög góð ákvörðun að selja Fernando Torres til Chelsea nú fyrr í vetur.

Undir það síðasta lagði Torres inn formlega beiðni um að verða seldur og segir Comolli að það hafi haft slæm áhrif á andrúmsloftið í leikmannahópnum.

„Þegar leikmaður vill ekki vera lengur hjá félaginu og aðrir koma í staðinn sem vilja koma hingað þá breytist andrúmsloftið til hins betra," sagði Comolli. „Það er eins og það hafi birt til og þetta er því allt á jákvæðu nótunum."

Comolli var fenginn til Liverpool til að hafa yfirumsjón með því að finna nýja leikmenn og sagði hann að það gæti verið mikið að gera í leikmannamálum félagsins nú í sumar.

„Eigendurnir hafa frá fyrsta degi sagt að þeir vilji bæta hlutina og það fljótt. Ég hef sagt það sama síðan ég kom og á ég því von á miklu annríki í sumar."

Torres hefur enn ekki náð að skora fyrir sitt nýja félag í þeim sjö leikjum sem hann hefur spilað með Chelsea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×