Enski boltinn

Ferguson samþykkir að hitta forstjóra BBC

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ferguson hefur ekki rætt við BBC síðan 2004.
Ferguson hefur ekki rætt við BBC síðan 2004. Nordic Photos / Getty Images
Alex Ferguson, stjóri Manchester United, hefur samþykkt að funda með Mark Thompson, forstjóra breska ríkisútvarpsins, til að reyna að leysa margra ára deilu Ferguson við BBC.

Það var stjórn ensku úrvalsdeildarinnar sem hafði milligöngu um fundinn en Ferguson hefur ekki rætt við BBC undanfarin sjö ár. Ástæðan er sú að árið 2004 sýndi BBC heimildamynd um son hans, Jason, sem Ferguson var ekki sáttur við.

Hann hefur alla tíð síðan þá neitað að koma í viðtöl við BBC fyrr en að fyrirtækið biðst opinberlega afsökunnar á því sem kom fram í myndinni.

Jason starfaði þá sem umboðsmaður knattspyrnumanna og í myndinni komu fram ásakanir um mútustarfssemi og að hann hafi nýtt sér tengsl föður hans í knattspyrnuheiminum. Þessu neituðu þeir feðgar alfarið.

Samkvæmt því sem kemur fram í enskum fjölmiðlum í dag eru litlar líkur taldar á því að Thompson muni biðjast afsökunar á einu eða neinu en vonast er til þess að fundurinn muni mögulega breyta einhverju til hins betra.

Ferguson ber eins og öðrum knattspyrnustjórum liða í ensku úrvalsdeildinni að ræða við fjölmiðla eftir leiki, þar á meðal BBC. Brot á þessu varðar við sektir en stjórn ensku úrvalsdeildarinnar hefur neitað að gefa upp hversu há sekt Ferguson er orðin. Talið er að hún hækki í hvert skipti sem Ferguson neitar að ræða við BBC og að hún nemi nú tugum milljóna króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×