Enski boltinn

Terry: Var í lífshættu síðast þegar ég spilaði hér

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
John Terry rifjaði í gær upp þegar hann spilaði síðast á Millenium-leikvanginum í Cardiff þar sem að Wales og England munu mætast í undankeppni EM 2012 á morgun.

Það var árið 2007 og Chelsea lék gegn Arsenal í úrslitum ensku deildabikarkeppninnar. Abou Diaby, leikmaður Arsenal, sparkaði óviljandi af miklum krafti í andlit Terry sem reyndi að skalla að marki eftir hornspyrnu.

Eins og sjá má í meðfylgjandi myndbandi steinrotaðist Terry og voru leikmenn greinilega mjög skelkaðir. En betur fór en á horfðist.

„Ég man að ég vaknaði aftur á spítalanum og það fyrsta sem ég gerði var að hrifsa síma vinar míns til að fá að vita stöðuna í leiknum,“ sagði Terry á blaðamannafundi í gær.

„Sem betur fer tókst mér að koma mér aftur í búningsklefann og taka þátt í fögnuðinum með strákunum eftir leikinn.“

Gary Lewin starfaði þá sem sjúkraþjálfari hjá Arsenal og var fyrstur til að veita honum hjálp inn á vellinum.

„Ég var í lífshættu og var Gary sá fyrsti sem kom inn á völlinn til að hjálpa mér. Ég hef þekkt hann í langan tíma. Hann er frábær náungi og mjög fær í sínu starfi. Hann kom fyrst og svo kom læknir Chelsea og þeir unnu mjög vel saman inn á vellinum.“

Mikið hefur verið fjallað um Terry síðustu daga þar sem að Fabio Capello, landsliðsþjálfari Englands, ákvað að gefa honum aftur fyrirliðabandið sem hann tók af honum á sínum tíma.

„Það er gaman að vera kominn aftur með fyrirliðabandið og fá að fara fyrir liðinu út á völlinn. Það er það sem mig dreymdi um sem lítill strákur og sem betur fer fékk ég bandið aftur.“

„En það mikilvægasta er samt að við vinnum leikinn. Við viljum komast aftur á topp riðilsins.“

England er í öðru sæti G-riðils með sjö stig eftir þrjá leiki en Svartfjallaland er á toppnum með tíu stig eftir fjóra leiki. Wales er stigalaust á botninum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×