Fótbolti

Hermann: Við töpuðum ekki og þú verður að byrja einhvers staðar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hermann Hreiðarsson.
Hermann Hreiðarsson. Mynd/Stefán
Hermann Hreiðarsson, landsliðsfyrirliði Íslands, stóð í ströngu í markalausu jafntefli á móti Kýpur í kvöld en þetta var fyrsta stig íslenska liðsins í undankeppni EM. Kýpur fékk fullt af færum en íslenska vörnin með Hermann í fararbroddi hélt hreinu.

„Þetta var eins og við áttum von á. Þeir héldu boltanum og eru flinkir í fótbolta. Við ákváðum bara að reyna að loka svæðum, halda stöðunum og reyna ná þeim í skyndisóknunum. Það tel ég að hafi heppnast þokkalega," sagði Hermann Hreiðarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í viðtali við Arnar Björnsson á Stöð 2 Sport eftir leik.

„Þeir henda mörgum mönnum fram á við en þeir spila mikið til hliðanna og svo eru þeir að taka hlaup til þess að reyna að opna svæði fyrir hvern annan. Þeir voru því yfirmannaðir á miðjunni því okkar varnarmenn vildu ekki hlaupa út úr stöðum til þess að elta sína menn. það var hluti af planinu," sagði Hermann.

„Við ætluðum að halda hreinu í dag og lögðum fyrst og fremst áhersluna á það. Við sköpuðum okkur ágætis færi en það má alltaf gera betur. Við hefðum getað haldið boltanum betur í fyrri hálfleik en seinni hálfleikurinn var mun betri. Við náðum að standa af okkurstorminn í fyrri hálfleik," sagði Hermann.

„Við töpuðum ekki og þú verður að byrja einhvers staðar. Það má ekki vanmeta þetta Kýpur-lið því þetta er fínt fótboltalið sem gerði jafntefli á útivelli við Portúgal. Þeir vita alveg hvað þeir eru að gera þannig að þetta er nokkuð sterkt stig," sagði Hermann að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×