Fótbolti

Pearce: Verðum að vera með okkar sterkasta lið í sumar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Stuart Pearce segir að U-21 lið Englands muni líta illa út í úrslitakeppni EM í sumar ef hann fær ekki að taka sína sterkustu leikmenn með í keppnina.

Mikið hefur verið rætt um þetta mál í enskum fjölmiðlum og þá sérstaklega hvort að Pearce fái að taka leikmenn á borð við Jack Wilshere og Andy Carroll með sér en báðir verða líklega í byrjunarliði A-landsliðs Englands sem mætir Gana í vináttulandsleik í dag.

Fleiri leikmenn voru þó fjarverandi í gær þegar að íslenska U-21 landsliðið vann góðan 2-1 sigur á jafnöldrum sínum í Englandi.

Pearce sagði eftir leik að allir hefðu gott af því að spila á mótinu í sumar.

„Ef ég sjálfur væri að þjálfa hjá félagsliði myndi ég hvetja mína leikmenn til að spila með sínu landsliði í sumar. Þannig er ég bara gerður," sagði Pearce.

„Ég tel að það mikilvægasta er að spyrja leikmennina sjálfa hvað þeir vilja gera í sumar," bætti hann við en Wilshere sjálfur hefur til dæmis lýst því yfir að hann vilji fara til Danmerkur í sumar.

„Þeir myndu fá að upplifa frábært mót og fá að spreyta sig gegn bestu leikmönnum Evrópu. Við munum líta út fyrir að vera áhugamenn ef við kæmum ekki með okkar sterkasta lið."

„Við höfum búið til þá mýtu að við spilum meiri fótbolta en allir aðrir í heiminum. En svo gæti spænska liðið mætt til leiks með Sergio Busquets sem varð heimsmeistari með A-liði Spánar. Þá myndum við líta út eins og hálfgerðir bjánar."

Hann sagði að hann hefði lært dýrmæta lexíu í tapinu í gær. „Við vissum að Ísland væri með gott lið og þeir beittu öflugum skyndisóknum gegn okkur. Þetta er mikil vonbrigði fyrir okkur og verður vonandi til þess að við vöknum til lífsins."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×