Innlent

Engar siðareglur hjá forsetanum ári eftir rannsóknarskýrslu

Helga Arnardóttir skrifar
Ekki hafa verið settar siðareglur hjá embætti forseta Íslands en tæpt ár er liðið frá því mælt var með að slíkar reglur yrðu settar í siðfræðikafla skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands var gagnrýndur í siðfræðikafla skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis og þótti hafa gengið mjög langt í þjónustu við einstök fyrirtæki og einstaklinga. Í ljósi sögunnar hefði þurft mun meiri aga og reglufestu við ákvarðanatöku, hófsemi í framkvæmdagleðinni, reglur um skráningu fundargerða og óæskileg tengsl hafi í sumum tilvikum verið milli einstaklinga.

Í siðferðiskafla skýrslunnar segir að æskilegt væri að forsetaembættið setti sér siðareglur, þar sem meðal annars yrði kveðið á um með hvaða hætti forsetinn veitti viðskiptalífinu stuðning.

Skömmu eftir útgáfu skýrslunnar í apríl í fyrra hófst undirbúningur innan forsætisráðuneytisins við setningu siðareglna fyrir ráðherra og opinbera starfsmenn. Lög um það voru samþykkt á síðasta þingi. Þá hefur forsætisráðuneytið ítrekað hvatt til þess að forsetaembættið setti sér siðareglur.

Enn bólar ekki á slíkum reglum hjá embættinu.

Fréttastofan sendi forsetaembættinu fyrirspurn vegna málsins og virðist sem embættið telji ekki þörf á þeim. Í stuttu svari frá embættinu segir:

„Þessi málefni hafa verið rædd en skiptar skoðanir eru meðal sérfræðinga um eðli, inntak og gildi slíkra reglna fyrir þjóðhöfðingja enda spurning um erlend og alþjóðleg fordæmi. Athugun embættisins leiddi t.d. í ljós að engar slíkar siðareglur eru til fyrir þjóðhöfðingja annarra Norðurlanda."Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.