Innlent

Líklega kosið um stjórnlagaþing meðfram Icesave

Heimir Már Pétursson skrifar
Þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave lögin fer í síðasta lagi fram eftir tvo mánuði. Tillaga að kjördegi verður væntanlega lögð fyrir ríkisstjórn í fyrramálið.

Þegar forseti Íslands hafnaði fyrri Icesavelögunum hinn 5. janúar 2010 voru engin lög til um þjóðaratkvæðagreiðslur í landinu. Alþingi þurfti því að setja sérlög um þjóðaratkvæðagreiðsluna og gekk hratt til verka og afgreiddi þau lög þremur dögum eftir synjun forsetans. Þar var tekið fram að atkvæðagreiðslan skyldi ekki fara fram síðar en fyrsta laugardag í mars og gekk það eftir og gengu landsmenn að kjörborðinu hinn 6. mars 2010.

Frumvarp sem forsætisráðherra hafði lagt fram um þjóðaratkvæðagreiðslur þremur mánuðum áður en forsetinn synjaði fyrri Icesave lögunum, varð að lögum í júní 2010 og eftir þeim lögum mun þjóðaratkvæðagreiðslan vegna síðustu synjunar forsetans fara fram. Samkvæmt þeim skal innanríkisráðherra ákveða spurninguna á kjörseðlinum og atkvæðagreiðslan skal fara fram eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að forseti synjar lögum staðfestingar.

Samkvæmt heimildum fréttastofunnar mun Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra að öllum líkindum leggja fram tillögu að kjördegi á ríkisstjórnarfundi í fyrramálið. Auglýsing um atkvæðagreiðsluna skal birt að minnsta kosti mánuði áður en hún fer fram. Ef kosningarnar verða auglýstar í þessari viku geta þær því í fyrsta lagi farið fram hinn 26. mars en í síðasta lagi hinn 16. apríl.

Landskjörstjórn sagði af sér á dögunum eftir að Hæstiréttur úrskurðaði kosningar til stjórnlagaþings ólöglegar. Alþingi þarf því að kjósa nýja landskjörstjórn. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir forseti Alþingis segist reikna með að tilnefningar stjórnmálaflokkanna liggi fyrir í vikunni og Alþingi gangi frá kosningunni fyrir vikulokin. Landskjörstjórn skipuleggur kosningarnar og innanríkisráðherra skal senda öllum kosningabærum mönnum eintak af lögunum eigi síðar en viku fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er líklegast að kosningarnar fari fram níunda eða 16. apríl og að þá verði einnig kosið aftur til stjórnlagaþings, um þá frambjóðendur sem voru í framboði í stjórnlagaþingskosningunum í haust.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.