Enski boltinn

Jones hrósar Pulis í hástert

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Framherji Stoke, Kenwyne Jones, hrósar stjóranum sínum, Tony Pulis, í hástert fyrir að hafa blásið liðinu réttan baráttuanda í brjóst í leiknum gegn Aston Villa síðasta mánudag.

Ekki var búist við Pulis á leiknum þar sem móðir hans lést fyrr um daginn. Hann mætti síðan óvænt í hálfleik og kom þá sínum mönnum í gírinn en þeir voru 0-1 undir. Stoke vann leikinn 2-1.

"Ég hef aldrei upplifað neitt þessu líkt. Flestir myndu taka sér tíma til þess að syrgja. Tony var eflaust að syrgja en sorgin hvatti hann til þess að mæta og sinna starfinu sem hann elskar," sagði Jones.

"Ég er alls ekki með neina vanvirðingu í hans garð. Hann skilur vel að móðir hans lifði löngu og góðu lífi. Það finnst engum auðvelt að missa fjölskyldumeðlim en ég er viss um að hann mun á næstu dögum fagna því góða lífi sem móðir hans lifði.

"Það kom okkur mjög á óvart að sjá hann. Við áttum alls ekki von á honum. Hann sýndi ástríðu sína fyrir félaginu og liðinu. Hann mætti og sinnti sínu starfi. Það hvatti okkur til dáða. Stundum tekur ástríðan yfir allt annað."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×