Enski boltinn

Pearce vill sjá Hart í marki Englands

Elvar Geir Magnússon skrifar
Joe Hart hefur leikið feykilega vel fyrir Birmingham á tímabilinu.
Joe Hart hefur leikið feykilega vel fyrir Birmingham á tímabilinu.

Búist er við því að markvörðurinn Joe Hart verði í enska landsliðshópnum sem mætir Egyptalandi á Wembley í næstu viku. Stuart Pearce segir að Hart hafi allt til brunns að bera til að verða aðalmarkvörður Englands.

Hart er 22 ára og á einn A-landsleik að baki en þá kom hann inn sem varamaður í hálfleik. Hann hefur hreinlega farið á kostum með Birmingham í vetur þar sem hann hefur verið á lánssamningi frá Manchester City.

Stuart Pearce, landsliðsþjálfari U21 landsliðsins, kom auga á Hart þegar hann var unglingur hjá Shrewsbury. Pearce keypti Hart til Manchester City á 1,5 milljónir punda og þekkir hann betur en flestir.

„Þegar við skoðuðum Joe fyrst þá sáum við að hann hefði margt til að geta orðið toppklassa markvörður. Svo kynntist ég honum betur og komst að því að viðhorf hans er mjög gott," segir Pearce.

„Hann er mjög jarðbundinn og yfirvegaður. Allir ungir markverðir gera mistök en hann hefur þann eiginleika að geta hætt að hugsa um þau og horft fram á veginn."

„Hjá City hefði hann getað haldið áfram að sitja á bekknum og þegið fín laun fyrir. En hann vildi spila," sagði Pearce.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×