Fótbolti

Brown vill sína leikmenn heim frá Afríku

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Phil Brown, stjóri Hull.
Phil Brown, stjóri Hull. Nordic Photos / Getty Images

Phil Brown, knattspyrnustjóri Hull, vill að þeir leikmenn félagsins sem eru að undirbúa sig fyrir Afríkukeppnina í Angóla snúi aftur til Englands sem allra fyrst.

Brown segir að aflýsa eigi keppninni eftir að ráðist var á liðsrútu Tógó í gær þar sem einn var skotinn til bana og níu særðir - þar af tveir leikmenn.

„Ég er stórhneykslaður. Þetta setur stórt spurningamerki yfir HM í Suður-Afríku næsta sumar," sagði Brown við enska fjölmiðla.

„Það er einfaldlega ekki hægt að setja líf leikmanna, starfsmanna og stuðningsmanna í minnstu hættu. Það er algerlega óásættanlegt," sagði hann enn fremur.

„Ég er með tvo leikmenn í keppninni, þá Daniel Cousin og Seyi Olofinjana og ég vil að þeir komi aftur til okkar sem allra fyrst."

Harry Redknapp, stjóri Tottenham, tók í svipaðan streng og sagði réttast að aflýsa mótinu með öllu.

„Það er ekki bara hægt að bíða eftir næstu skotárás. Ég er sammála því að það eigi að skoða það vandlega að aflýsa mótinu. Öryggi leikmanna hlýtur að vera í forgangi."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×