Fótbolti

Kemur til greina að halda HM um vetur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Sepp Blatter, forseti FIFA, hefur íhugað að halda HM í knattspyrnu árið 2022 um vetur, annað hvort í janúar eða febrúar.

Ákveðið var fyrr í mánuðinum að halda HM í Katar árið 2022 og hefur það verið mikið gagnrýnt, ekki síst þar sem að mikill hiti er á þessum slóðum um hásumarið þegar að heimsmeistarakeppnin fer yfirleitt fram.

Katar er staðsett í eyðimörk á Arabíuskaganum við Persaflóa og má búast við allt að 50 gráðu hita þar á sumrin.

„Ég styð það að það verði spilað að vetri til hér í miðausturlöndum," sagði Blatter á blaðamannafundi í Abu Dhabi þar sem að HM félagsliða fer nú fram.

„Það er mikilvægt fyrir leikmennina sjálfa að spila í viðunandi loftslagi. Ég er fyrst og fremst að hugsa um þá."

Jerome Valcke, framkvæmdarstjóri FIFA, segir að þetta komi vel til greina. „Af hverju ekki? Það þýðir að hægt verði að halda HM í löndum þar sem aldrei er hægt að spila í júní eða júlí."

„Það þyrfti þó að breyta miklu í skipulagi margra deilda í heiminum, aðallega í Evrópu, á viðkomandi ári."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×