„Ætli ég verði ekki bara að segja hlutina eins og þeir eru; ég hlustaði alveg gríðarlega mikið á þessa tónlist í gegnum reykingar á árunum 1974-78," segir Bubbi Morthens.
Hann er þessa dagana að taka upp nýja plötu sem vafalítið á eftir að koma hans hörðustu aðdáendum rækilega á óvart. Því hún verður soul-plata.
„Marvin Gay, Otis Redding, Sam Cook, þetta voru menn sem ég hlustaði alveg gríðarlega mikið á og þetta verður tónlist í þeim anda," útskýrir Bubbi en fyrsta lagið fór í spilun í gær.
Upptökustjórarnir á plötunni eru bræðurnir Börkur og Daði Birgissynir sem hafa tekið yfir Stúdíó Sýrland.
„Þetta stefnir í frábæra plötu, ég held að hann hafi sjaldan eða aldrei verið í jafn góðu formi, hann er alveg að negla þetta," segir Börkur og bætir við að upphaflega hafi bara staðið til að taka upp tvö lög „Bubbi hefur einfaldlega svona góð áhrif á alla sem eru í kringum hann, það eiga sér stað einhverjir töfrar í hljóðverinu sem er ekkert algilt." - fgg
Bubbi kom í viðtal í þáttinn Í bítið á Bylgjunni í gær og tók lagið Sól af nýju plötunni. Hægt er að hlusta á það hér.