Enski boltinn

Hodgson: Liverpool er ennþá eitt besta félag í heimi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roy Hodgson, stjóri Liverpool.
Roy Hodgson, stjóri Liverpool. Mynd/AP
Roy Hodgson, stjóri Liverpool, mætir með lið sitt til Bolton i dag þar sem liðið gæti sloppið úr fallsæti takist því að vinna sinn annan leik í röð í ensku úrvalsdeildinni.

Þrátt fyrir slæma byrjun þá er Hodgson viss um að Anfield hafi sama aðdráttarafl og áður þegar hann fer að huga að því að styrkja leikmannahópinn í janúarglugganum.

„Ef við viljum fá gæðaleikmenn þá þurfum við að borga fyrir þá rétta verðið. Nýju eigendurnir vita þetta manna best. Við verðum samt að vera öryggir á því að þegar við erum að eyða 20 milljónum punda í leikmann að við séum að fá leikmann sem er 20 milljón punda virði," sagði Roy Hodgson.

„Við viljum reyna að fá til okkar leikmenn sem Barcelona, Real Madrid og Inter eru líka að elstast við. Það væri gaman að vita til þess að við gætum verslað meðal þeirra bestu því Liverpool er ennþá eitt besta félag í heimi," sagði Hodgson.

„Ég fer samt eins og allir stjórar varlega inn í janúargluggann því hann getur verið hættulegur ef lið ætla að reyna laga hlutina of hratt. Ég er samt mjög áhugasamur um það að reyna að bæta við okkar lið í janúar og ég er viss um að við fáum nýja leikmenn," sagði Hodgson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×