Enski boltinn

West Ham kvartar yfir Fulham

Elvar Geir Magnússon skrifar
Roy Hodgson.
Roy Hodgson.

West Ham hefur lagt fram formlega kvörtun til ensku úrvalsdeildarinnar vegna þess að Roy Hodgson, stjóri Fulham, ákvað að tefla fram veikara liði í tapleiknum gegn Hull síðasta laugardag.

Hodgson hvíldi fimm sterka leikmenn sem hjálpaði Hull að vinna 2-0 sigur og er Hull nú búið að jafna West Ham að stigum í botnbaráttu deildarinnar.

Bobby Zamora, Danny Murphy, Damien Duff, Aaron Hughes og Dickson Etuhu voru ekki með gegn Hull en léku síðan á fimmtudagskvöld þegar Fulham vann 2-1 sigur gegn Wolfsburg í Evrópudeildinni. Næsta skref hjá ensku úrvalsdeildinni er að leita skýringa hjá Fulham en í reglum stendur að öll lið verði að tefla fram sínu sterkasta liði í öllum leikjum.

Ef talið er að Fulham hafi brotið þessa reglu mun félagið fá 25 þúsund punda sekt líkt og Wolves fékk fyrr á tímabilinu þegar Mick McCarthy gerði níu breytingar á liði sínu fyrir leik gegn Manchester United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×