Fótbolti

Japanar ætla mæta í James Bond-jakkafötum á HM í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Daniel Craig leikur James Bond þessa dagana.
Daniel Craig leikur James Bond þessa dagana. Mynd/Getty Images
Japönsku landsliðsmennirnir á HM í sumar verða flottir í tauinu þegar þeir mæta til leiks í heimsmeistarakeppninni í Suður-Afríku. Hver og einn leikmaður fær klæðskerasaumuð jakkaföt sem eru 3000 dollara virði en það samsvarar 385 þúsund íslenskum krónum.

Fyrirmyndin að hönnun jakkafata japanska liðsins er fengin úr James Bond myndunum þannig að það má búast við töff klæddum Japönum þegar þeir mæta til leiks í sumar.

„Leikmennirnir munu fá mjög flott jakkaföt fyrir keppnina. Þeir munu ferðast til og frá leikjum í þessum jakkafötum. Þau eru svipuð því sem maður sér í 007-myndunum," sagði Ichirota Fukushi, blaðafulltrúi japanska knattspyrnusambandsins.

Japan hefur aldrei unnið leik á HM utan heimalandsins en liðið stóð sig vel á HM 2002 sem fram fór í bæði Japan og Suður-Kóreu. Japanar eru í riðli með Hollandi, Kamerún og Danmörku og hafa væntanlega þegar tryggt sér sigur í keppninni um best klædda liðið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×