Hætta á flúoreitrun er meiri af gosum úr Eyjafjallajökli en Kötlu. Í jöklinum er berg svipað og á Heklusvæðinu, sem er með þrefalt magn af flúor.
Svo segir Sigurður Sigurðarson dýralæknir í samantekt um áhrif eldgosa á dýr. Hér á eftir fara fróðleikspunktar úr samantektinni.
- Eitrun verður bráð ef mikið flúor berst í líkamann á stuttum tíma, en langvinn ef magn umfram það sem skepnan losar sig við berst stöðugt á löngum tíma.
- Einkenni langvinnrar eitrunar eru beinaskemmdir, vanþrif og lömun.
- Flúor í miklu magni veldur kalkskorti eða doða í ám og kúm og klumsi í hryssum.
- Einkenni bráðrar eitrunar eru deyfð, slefa og nasarennsli, hósti og frís eða hnerrar, hröð öndun, lystarleysi, niðurgangur, sjóndepurð og blinda, lömun og meðvitundarleysi. Nýrun geta skemmst vegna eituráhrifa flúorsins.
- Flúor sest fyrst og fremst að í tönnum og beinum. Áhrif langvinnrar eitrunar eru ,,gaddur” og ,,fætlur”.
- Gaddur myndast við misslit á jöxlum, slitflötur verður ójafn, sem gerir skepnunum erfitt að bíta, tyggja og jórtra.
- „Fætlur“ eru áhlæði af frauðkenndu beini á fótleggjum og slíkir beinhnjóskar koma á fleiri bein svo sem kjálka og rifbein.