Enski boltinn

Hodgson: Hugarfar Torres í góðu lagi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Roy Hodgson, stjóri Liverpool.
Roy Hodgson, stjóri Liverpool. Nordic Photos / Getty Images

Roy Hodgson segir ekkert hæft í þeirri gagnrýni að Fernando Torres sé áhugalaus og vilji ekki spila með Liverpool.

Torres þótti standa sig illa í leik Birmingham og Liverpool um helgina sem lauk með markalausu jafntefli. Eftir leikinn var hann gagnrýndur í ensku pressunni og sagður hafa séð eftir þeirri ákvörðun að hafa verið um kyrrt í herbúðum Liverpool.

„Hann er alls ekki búinn að fá nóg og er gagnrýni eitthvað sem við verðum einfaldlega að búa við," sagði Hodgson við enska fjölmiðla. „Félagið er með háleit markmið og það hafa allir áhuga á okkur."

„Allt sem gerist hjá félaginu er skoðað í smásjá og það á einnig við um frammistöðu leikmanna. Fernando Torres á ekki í vandræðum með að takast á við það. Hann er frábær leikmaður og vill standa sig vel."

Hodgson sagði einnig að árangur Liverpool í upphafi tímabilsins hafi ekki verið alslæmur. „Við höfum spilað átta leiki í öllum keppnum. Við höfum unnið fimm þeirra, gert tvö jafntefli og tapað einum leik. Ég tel það alls ekki slæma byrjun á tímabilinu," sagði Hodgson.

Liverpool spilar á morgun við Steaua Búkarest í Evrópudeild UEFA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×