Enski boltinn

Enn bætist við meiðslalista Arsenal - tveir missa af United-leiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eduardo da Silva gengur hér meiddur af velli í gær.
Eduardo da Silva gengur hér meiddur af velli í gær. Mynd/AFP
Arsenal verður án marga sterkra leikmanna þegar liðið mætir

Manchester United á Emirates-vellinum í stórleik ensku úrvalsdeildarinnar á sunnudaginn.

Thomas Vermaelen og Eduardo da Silva bættust á meiðslalistann í markalausa jafnteflinu á móti Aston Villa í gær en þar fyrir eru menn eins og Robin van Persie, Johan Djourou, Kieran Gibbs, Fran Merida og Abou Diaby.

Arsene Wenger, stjóri Arsenal, óttast það að Vermaelen sé fótbrotinn.

„Hann gengur um á hækjum og þetta er fíbúlan. Við eigum eftir að kanna hvort að hún sé brotin eða hvort að þetta sé taugaskemmd," sagði Wenger um belgíska miðvörðinn sem hefur spilað svo vel á tímabilinu.

„Eduardo tognaði aftan í læri og þó að þetta sé lítil skemmd þá verður hann ekki með á sunnudaginn," sagði Wenger.

Wenger þarf væntanlega að nota Sol Campbell (35 ára) og Williams Gallas (32 ára) saman í öftustu varnarlínu Arsenal-liðsins á móti Manchester United sem þýðir að miðvarðarparið verður 67 ára samanlagt.

Leikurinn er gríðarlega mikilvægur fyrir Arsenal ef liðið ætlar að halda sér inni í meistarabarátunni því tapist leikurinn og Chelsea vinnur á laugardaginn þá er liðið farið að dragast aftur úr.

Chelsea yrði þá komið fimm stigum á undan Arsenal og United verður fjórum stigum á undan lærisveinum Wenger fari allt á versta veg á sunnudaginn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×