Enski boltinn

Ancelotti: Bauð Chelsea-liðinu út að borða og borgaði reikninginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea, fer sínar eigin leiðir.
Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea, fer sínar eigin leiðir. Mynd/AFP

Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea, bauð öllu liði sínu út að borða eftir 5-0 sigur liðsins í enska bikarnum um síðustu helgi og leikmenn hans launuðum honum með því að gjörsigra Sunderland 7-2 í ensku úrvalsdeildinni í gær.

„Það er ekkert óvenjulegt í minni bók að bjóða leikmönnum út að borða hvort sem er í hádegis- eða kvöldmat," sagði Ancelotti þegar hann var spurður út í bæjarferð liðsins.

Ancelotti tapaði veðmáli við leikmenn sína ítengslum við bikarleikinn. „Þetta snérist um ákveðna leið við að taka aukaspyrnu sem ég hafði talað um við þá. Við höfðum aldrei reynt þetta á æfingu og ég sagði mínum mönnum að ég myndi bjóða þeim út að borða ef að þeir myndu prófa þetta í fyrsta sinn í leiknum," sagði Ancelotti.

„Þeir reyndu þetta í leiknum. Aukaspyrnan tókst reyndar ekki en ég bauð liðinu engu að síður út að borða," sagði Ancelotti.

„Það er mjög mikilvægt að eiga gott samband við mína leikmenn og að ég geti treyst því að þeir framkvæmi mína hugmyndafræði inn á vellinum. Auðvitað verður að maður að halda virðingu leikmanna en það er líka mjög mikilvægt að stjórna andrúmsloftinu í klefanum og reyna að halda góðum anda í hópnum," sagði Ancelotti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×