Enski boltinn

Sir Alex bannaði myndavélar Sky á blaðamannafundi United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United.
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United. Mynd/AFP

Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, kennir Sky-fréttastofunni um það að Rio Ferdinand sé hugsanlega á leiðinni í þriggja leikja bann og um hversu mikið var gert úr deilumálum Gary Neville og Carlos Tevez. Ferguson hefur í framhaldinu bannað myndavélar Sky á æfingum liðsins.

Rio Ferdinand gæti misst af seinni leik Manchester United og Manchester City í undanúrslitum enska deildarbikarsins í kvöld þar sem hann er á leiðinni fyrir aganefnd enska knattspyrnusambandsins eftir viðskipti sín við Craig Fagan, framherja Hull um helgina.

Ferguson varð alveg brjálaður út í Sky þegar hann frétti af því að það voru myndir Sky sem leiddu til þess að Ferdinand var kærður fyrir aganefndinni og að hann sé líklega að missa miðvörðinn sinn í þriggja leikja bann.

Áður hafði Ferguson gagnrýnt Sky fyrir hversu oft var sýnt þegar Gary Neville sýndi Carlos Tevez fingurinn í fyrri leik liðanna í undanúrslitum deildarbikarsins.

Ferguson hafði komið fram og sagt að sínir leikmenn væru alltaf til fyrirmyndar og hegðun þeirra á velinum væri fullkomin og ávalt samkvæmt reglum leiksins.

Ferguson kom því enn á ný til varnar sínum mönnum en það var frægt á sínum tíma þegar hann varði hrikalega tæklingu Roy Keane á Alfie Haaland og það þegar Gary Neville skallaði Steve McManaman.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×