Erlent

Franska strandgæslan vill banna sund yfir Ermarsund

Franska strandgæslan vill banna sundmönnum að synda yfir Ermarsundið. Telur strandgæslan það aðeins tímaspursmál hvenær alvarlegt slys verði vegna þungrar skipaumferðar um sundið.

Í umfjöllun um málið á BBC segir að þeim sem vilja synda yfir Ermarsundið hafi fjölgað töluvert á síðustu árum og af þeim sökum hafi franska strandgæslan miklar áhyggjur af ástandinu.

Bent er á að einhver mesta skipaumferð í heimi sé um Ermarsund en um það sigla yfir 500 skip á dag að jafnaði. Þar að auki sigla margar ferjur daglega fram og til baka milli Frakklands og Bretlands.

Jean-Christope Burvingt einn af forstjórum frönsku strandgæslunnar segist óttast að sundmenn lendi í slysi vegna skipaumferðarinnar og að hættan á slíku aukist með hverju árinu.

Samtökin sem sjá um Ermarsundssundið vísa þessum áhyggjum á bug. Talsmaður þeirra segir að sundið sé nákvæmlega skipulagt með tilliti til skipaumferðarinnar og að fyllsta öryggis sundmannanna sé gætt í hvert skipti sem þeir syndi þessa vinsælu 34 kílómetra löngu sundleið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×