Enski boltinn

Hargreaves frá í fjórar vikur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Alex Ferguson, stjóri Manchester United, segir að Owen Hargreaves verði frá í fjórar vikur vegna meiðslanna sem hann varð fyrir í leiknum gegn Wolves um helgina.

Hargreaves var óvænt í byrjunarliði United í fyrsta sinn í 26 mánuði en hann hefur átt við þrjálát hnémeiðsli að stríða. Hann entist þó aðeins í fimm mínútur þar til að hann þurfti að fara af velli eftir að hann meiddist á vöðva aftan á læri.

„Það getur verið að hann hafi meiðst vegna skorts á leikæfingu," sagði Ferguson. „Kannski var hann stressaður þar sem þetta var hans fyrsti leikur í langan tíma. En hann hefur verið að æfa mjög vel og læknar töldu að það væri í lagi að láta hann spila," sagði Ferguson.

John O'Shea, félagi Hargreves hjá United, sagði leikmenn hafa fundist þetta leiðinlegt fyrir hans hönd. „Hann var búinn að hlakka mikið til leiksins og leggja mikla vinnu á sig," sagði O'Shea.

„En hann mun koma til baka, það efast enginn um það. Það verða sjálfsagt einhverjar hindranir á leiðinni en hann þarf bara að yfirstíga þær."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×