Enski boltinn

Birmingham hafði betur í vítaspyrnukeppni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hinn 39 ára gamli Norður-Íri, Maik Taylor, var hetja Birmingham í kvöld.
Hinn 39 ára gamli Norður-Íri, Maik Taylor, var hetja Birmingham í kvöld.

Birmingham er komið áfram í næstu umferð ensku deildabikarkeppninnar eftir nauman sigur á C-deildarliði Brentford.

Birmingham hafði betur í vítaspyrnukeppni, 4-3, eftir að framlengdum leik lauk með 1-1 jafntefli.

Reyndar leit allt út fyrir sigur Brentford í kvöld þar sem að jöfnunarmark Birmingham kom í uppbótartíma.

Sam Wood hafði komið Brentford yfir á 68. mínútu en Kevin Phillips jafnaði metin fyrir Birmingham áður en leikurinn var flautaður af.

Bæði lið höfðu misnotað eina spyrnu þegar að Craig Woodman lét Maik Taylor verja frá sér í fimmtu spyrnu Birmingham.

Þar með sluppu þeir bláklæddu með skrekkinn en Brentford hafði þegar slegið eitt úrvalsdeildarlið úr keppni er liðið vann Everton í vítaspyrnukeppni í síðustu umferð.

Fimm leikir fóru fram í keppninni í kvöld. Manchester United, Ipswich, West Brom og Wigan eru öll komin áfram, rétt eins og Birmingham.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×