Fótbolti

Maradona: Guð vill að við komumst í úrslitaleikinn

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Diego Maradona.
Diego Maradona. AFP
Diego Maradona liggur ekki á skoðunum sínum og blaðamönnum og áhangendum til mikillar ánægju talar hann aldrei undir rós. Maradona stýrir Argentínu gegn Þýskalandi í dag í leik sem má kalla fyrstu alvöru prófraun Argentínu.

Liðið átti ekki í teljandi vandræðum með Suður-Kóreu, Grikkland og Nígeríu í riðlakeppninni og Mexíkó reyndist þeim auðveldur biti í 16 liða úrslitunum.

Í nokkurs konar kynningu fyrir HM í argentínska sjónvarpinu sjást krakkar tala við Maradona þar sem þeir segja í myndavélina:

„Diego, við viljum komast í úrslitaleikinn. Vonandi geturðu uppfyllt draum okkar," segja krakkarnir áður en Maradona svarar með bros á vör: „Verið rólegir krakkar. Ég sé ykkur í úrslitaleiknum. Ef Guð vill, sé ég ykkur þar. Og það er það sem Guð vill," segir Maradona.

Uppgangur Argentínu frá undankeppninni hefur verið magnaður en í dag mæta þeir Þjóðverjum sem sýndu styrk sinn gegn Englendingum, 4-1 sigur þeirra var öruggur og liðið spilaði vel.

„Við þurfum að sýna að við getum unnið alvöru stórlið eins og Argentínu, Brasilíu eða Spán. Þetta eru án efa stærri andstæðingar en England," sagði fyrirliðinn Philipp Lahm og bætti við að Argentínumenn séu tapsárir.

„Við vitum að Suður-Ameríkumenn eru blóðheitir og þola ekki að tapa," sagði Lahm.

Leikurinn hefst klukkan 14 í dag og búast má við frábærri viðureign þessara stórþjóða í knattspyrnuheiminum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×