Fótbolti

Ísland nálgast sinn versta árangur - 112. sæti á FIFA-listanum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari.
Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari.

Ísland datt niður um tvö sæti á styrkleikalista FIFA sem gefinn var út í dag. Liðið situr nú í 112. sæti en þetta var síðasti listi ársins.

Reyndar deilir Ísland 112. sætinu með Wales en Katar, sem heldur HM 2022, er næst í 114. sæti.

Meðal þeirra liða sem hoppa upp fyrir íslenska liðið má nefna Antígva og Barbúda-eyjar og Mið-Afríkulýðveldið.

Á fimm mánuðum hefur Ísland fallið um 33 sæti, úr 79. sæti í það 112. Ísland hefur aldrei verið neðar en í 117. sæti listans en liðið var í því sæti í ágúst árið 2007.

Ísland lék einn leik síðan síðasti listi var gefinn út, það var 3-2 tapleikurinn í Ísrael.

Ísland er í 45. sæti af 53 meðal Evrópuþjóða.

Heims- og Evrópumeistarar Spánverja eru í efsta sæti listans og Holland í öðru sæti. Þýskaland hoppar upp í þriðja sætið á kostnað Brasilíumanna og Argentína er í fimmta sæti.

England, Úrúgvæ, Portúgal, Egyptaland og Króatía koma svo næst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×