Erlent

Netsamband landsins rofið

Herforingjastjórnin í Búrma hefur haldið Aung San Suu Kyi í stofufangelsi undanfarin ár. Nordicphotos/AFP
Herforingjastjórnin í Búrma hefur haldið Aung San Suu Kyi í stofufangelsi undanfarin ár. Nordicphotos/AFP
Allt netsamband við Búrma rofnaði í gær, þegar álagsárás á tölvukerfi landsins virtist ná hámarki. Tímasetning árásarinnar þykir engin tilviljun, en kosið er í landinu á morgun.

Álagsárásir eru gerðar til að valda truflunum á netsambandi. Tölvuþrjótar nota þúsundir tölva víða um heim sem þeir hafa náð stjórn á til að fara inn á vefsvæði á sama tíma. Þoli vefsvæðið ekki álagið ná engar tölvur sambandi við það.

Árásir á netkerfi Búrma hafa staðið yfir síðustu daga, en árásin náði áður óþekktum hæðum í gær. Álagið var margfalt meira en það sem netþjónar í Búrma réðu við, og raunar meira en mælst hefur í sambærilegum árásum. Afleiðingarnar urðu þær að netsambandið rofnaði algerlega.

Kosningar eru í Búrma á morgun, þær fyrstu í tuttugu ár. Herforingjastjórnin í landinu hefur verið harðlega gagnrýnd vegna fyrirkomulags kosninganna. Í kosningum árið 1990 vann flokkur Aung San Suu Kyi stórsigur, en herforingjastjórnin neitaði að láta af völdum og hneppti Suu Kyi í stofufangelsi, sem hún situr í enn í dag.- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×