Enski boltinn

Sir Alex lánaði Welbeck til sonar síns í Preston

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Danny Welbeck fagnar marki fyrir United eins og spretthlauparinn Usain Bolt.
Danny Welbeck fagnar marki fyrir United eins og spretthlauparinn Usain Bolt. Mynd/AFP

Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, hefur fallist á það að lána framherjann Danny Welbeck til enska b-deildarliðsins Preston North End.

Darren Ferguson, sonur Sir Alex, er nýtekinn við Preston og Danny Welbeck er fyrsti leikmaðurinn sem hann nær í til liðsins.

Danny Welbeck er aðeins 19 ára gamall en hefur komið við sögu í ellefu leikjum með Manchester United á þessu tímabili. Hann framlengdi samning sinn við United um fjögur ár í desember síðastliðnum.

„Danny er ungur leikmaður sem hefur spilað marga leiki með United á tímabilinu. Hann á möguleika á því að verða frábær leikmaður," sagði Darren Ferguson á heimasíðu Preston.

„Hann kemur hingað til þess að fá að spila og ég er viss um að hann kemur hingað með rétta hugarfarið," bætti Darren Ferguson við en hann verður með Welbeck í hópnum á móti Peterborough á morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×