Erlent

Fá 5.200 milljarða neyðaraðstoð

Stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur samþykkt að veita Grikkjum 40 milljarða dollara neyðaraðstoð.
nordicphotos/afp
Stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur samþykkt að veita Grikkjum 40 milljarða dollara neyðaraðstoð. nordicphotos/afp
Stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur samþykkt að veita Grikkjum 40 milljarða dollara neyðaraðstoð, eða um 5.200 milljarða íslenskra króna.

Stjórnin fundaði í Washington í gær þar sem hún samþykkti neyðaraðstoðina. Áður höfðu leiðtogar Evrópuríkja samþykkt að veita Grikkjum hundrað milljarða dollara aðstoð, eða um 13 þúsund milljarða króna, á næstu þremur árum til að koma í veg fyrir þjóðargjaldþrot.

Til að bregðast við ástandinu hafa grísk stjórnvöld ákveðið að fara í miklar aðhaldsaðgerðir. Almenningur hefur brugðist harka­lega við og hafa uppþot verið tíð í landinu að undanförnu.

Peningaaðstoðin til Grikkjanna er einnig nauðsynleg til að koma stöðugleika á alþjóðlega fjármálamarkaði sem óttast að skuldirnar muni sliga fleiri Evrópuþjóðir á næstunni. Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, gerir sér fyllilega grein fyrir vandamálinu og hefur hvatt leiðtoga Evrópuríkja til að koma á stöðugleika á fjármálamarkaði. Ræddi hann málin við Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, og Nicolas Sarkozy, forseta Frakklands, í gær.- fb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×