Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea, segir að Didier Drogba hafi greinst með malaríu en Drogba kvartaði undan slappleika fyrir Liverpool-leikinn um helgina og byrjaði þess vegna á bekknum í leiknum.
Drogba kom samt inn á sem varamaður í hálfleik en þá var Liverpool búið að skora bæði mörkin sín í leiknum. „Niðurstöður úr blóðrannsókn hans bárust okkur í gær og þar kom í ljós að hann sé með malaríu. Ég veit ekki hvaðan hann fékk hana," sagði Carlo Ancelotti.
Malaría er smitsjúkdómur sem er útbreiddur í mörgum hitabeltislöndum. Orsök sjúkdómsins eru sníkjudýr sem berast á milli manna og sýkja rauð blóðkorn í hýsli sínum þar sem kynlaus fjölgun á sér stað. Blóðkornin springa, snýkjudýrin losna út í blóðrásina og sýkja önnur rauð blóðkorn. Þetta veldur sótthita og blóðleysi. Sjúklingurinn getur fallið í dá og jafnvel dáið.
Didier Drogba hefur skorað 6 mörk og lagt upp önnur sex í tíu leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.
