Enski boltinn

Þrír leikir á dagskrá í ensku úrvalsdeildinni í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arsenal er búið að skora tólf mörk í síðustu fjórum leikjum sínum.
Arsenal er búið að skora tólf mörk í síðustu fjórum leikjum sínum. Mynd/AFP

Það fara fram þrír leikir í ensku úrvalsdeildinni í dag en flestra augu verða örugglega á leik Bolton og Arsenal á Reebok-vellinum þar sem Owen Coyle stjórnar liði Bolton í fyrsta skiptið eftir að hafa yfirgefið Burnley.

Dagurinn í ensku úrvalsdeildinni hefst á leik Aston Villa og West Ham klukkan 13.30, Blackburn tekur síðan á móti Fulham klukkan 15.00 og þriðji og síðasti leikur dagsins er síðan umræddur leikur Bolton og Arsenal sem hefst klukkan 16.00.

Aston Villa - West Ham (Klukkan 13.30)

Aston Villa vann 1-0 sigur á Blackburn í deildarbikarnum í vikunni sem var jákvætt fyrir liðið eftir töp á móti Arsenal og Liverpool í síðustu leikjum sínum í úrvalsdeildinni. Aston Villa hefur unnið 7 af síðustu 9 leikjum sínum og West Ham hefur aðeins unnið einu sinni í síðustu tólf heimsóknum sínum á Villa Park. West Ham vann fyrr leik liðanna 2-1 á Upton Park en hefur síðan aðeins unnið 2 af 9 deildarleikjum síðan.

Blackburn - Fulham (Klukkan 15.00)

Fulham hefur ekki unnið á útivelli síðan á opnunardegi tímabilsins en heimsækja nú Blackburn sem hefur ekki unnið í síðustu níu leikjum sínum í úrvalsdeildinni. Blackburn Rovers hefur aðeins náð í 1 stig af 15 mögulegum á móti Lundúnaliðum á þessu tímabili. Fulham vann fyrri leikinn 3-0 á Craven Cottage þar sem Clint Dempsey skoraði tvö mörk og Erik Nevland var með eitt.

Bolton - Arsenal (Klukkan 16.00)

Fyrstu tveir leikir Owen Coyle sem stjóra Bolton verða líklega báðir á móti Arsenal því liðin mætast síðan aftur á Emirates á miðvikudaginn kemur. Arsenal hefur unnið sex síðustu leiki sína á móti Bolton og skoraði 14 mörk í þeim. Bolton hefur skorað ellefu mörk í síðustu sex deildarleikjum en hefur samt aðeins unnið einn sigur í þeim. Arsenal-liðið er taplaust í síðustu átta deildarleikjum og hefur náð í 20 af 24 mögulegum stigum í leikjum sínum frá og með desember-mánuði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×