Enski boltinn

Sissoko hjá Juventus: Benitez getur alltaf fengið gott starf í Evrópu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Sissoko og Steven Gerrard.
Mohamed Sissoko og Steven Gerrard. Mynd/AFP
Momo Sissoko, miðjumaður Juventus og fyrrum leikmaður Liverpool, telur að Rafael Benitez geti valið úr tilboðum frá bestu félögum Evrópu ákveði Spánverjinn að yfirgefa brúnna hjá Liverpool.

Forráðamenn Juventus hafa samkvæmt fréttum á Ítalíu sett Rafael Benitez efstan á óskalistann yfir næsta þjálfara en dagar Ciro Ferrara sem þjálfara Juve eru nánast taldir.

„Rafa hefur náð frábærum árangri og hann getur alltaf fengið gott starf í Evrópu. Hann fær nóg af tilboðum, ég efast ekki um það," sagði Momo Sissoko í viðtali við netmiðilinn Goal.

Benitez hefur tvisvar náð í Sissoko til síns liðs. Hann fékk hann til Valencia árið 2003 og svo aftur til Liverpool árið 2005.

„Rafa er frábær þjálfari og hann hafði trú á mér. Hann gerði mig stoltan af því að spila fyrir Liverpool og lét mig vinna, vinna, vinna til þess að verða betri," sagði Sissoko.

Sissoko er á því að brotthvarf Xabi Alonso hafi haft mikið að segja með gengi Liverpool-liðsins í vetur.

„Xabi er frábær leikmaður og öll lið myndi sakna hans. Ég þekki Xabi vel og tala reglulega við hann þannig að ég hef alltaf sagt að hann væri yndislegur leikmaður," sagði Sissoko.

„Ef við horfum á menn eins og Steven Gerrard, Jamie Carragher og fleiri þá eru þarna leiðtogar sem geta drifið liðið áfram. Liverpool er með gott lið og þeir geta alveg staðið sig vel án Xabi," sagði Sissoko.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×